Góðan daginn lömbin mín!
Hef svo sem ekkert skemmtilegt að segja, en þar sem markmiðið mitt segir til um að ég eigi að blogga minnst einu sinni í viku, þá kemur hér flunkuný færsla beint frá kóngsins Kaupinhavn.
Vikan hefur einkennst af vinnu og skóla, svona eins og venjulega, og þurfti ég meðal annars að afþakka bjórþamb úti í sólskininu vegna vinnu, þvílíkt líf. Svo verður allsvakalegt próf í skólanum á morgun, og þá er eins gott að standa sig, því annars getur maður dottið alveg niður á þrep tvö! Reyndar þarf ég minnstar áhyggjur að hafa af þessu prófi, allavega miðað við bekkjarfélaga mína...
Núnú, í dag er sunnudagur og ég er í fríi. Ég ætla að nota daginn í ýmsa hluti á borð við tiltek og þrif, sólbað í brennandi sólskini og fegrunaraðgerðir af ýmsu tagi. Jájá.
Hún móðir mín á fastan skype-tíma hjá mér einu sinni í viku, um miðjan dag á laugardögum. Í gær hafði hún ekki tíma til þess að hringja fyrr en seinnipartinn því hún var inni á Akureyri með honum pápa. Þar þurfti hún að nota hann sér til halds og trausts við hin ýmsu (hjóla)innkaup, því nú kemur bráðum sá tími ársins sem foreldrar mínir skilja og best að nota manninn á meðan hún getur. Já gott fólk, sauðburðurinn er að fara að byrja! Þá flytur pabbi hringalaus í fjárhúsin og mamma fær fulla vinnu við það að baka bakkelsi svo kallinn fái nú eitthvað almennilegt með kvöldkaffinu.
Reyndar er ég ekkert alltof bjartsýn á að honum karli föður mínum muni takast að koma sér slysalaust frá þessum sauðburði. Fyrir tveimur vikum síðan skar hann í sundur slagæðina í þumalputtanum á sér til þess að þurfa ekki að klára að rýja. Síðan var hann að saga og sneiddi smá úr fingrinum á sér í leiðinni. Síðan klemmdi hann sig daginn eftir að ég hafði skrifað blóðlúsarfærsluna, og fékk þessa fínu fínu blóðlús á alveg nákvæmlega sama stað á sama putta og ég! Það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir til þess að sleppa við sauðburðinn, ætli það verði ekki handleggurinn af við öxl...
Þá held ég að einkadóttirin verði að panta sér flugmiða heim og taka aðstæður í sínar hendur eins og á meðfylgjandi mynd:
Því miður hef ég sleppt því að skanna ártalið á myndinni með þegar ég skannaði þessa mynd inn í tölvuna mína fyrir mörgum árum síðan (myndina ætlaði ég að nota í heimasíðugerð í tölvufræði í fyrsta bekk í MA, en ég kláraði aldrei heimasíðuna svo myndin komst aldrei á netið...). Ef að foreldrar mínir vita hvaða ár þessi mynd er tekin, þá mega þeir gjarnan láta mig vita! Ég er ábyggilega ekki nema 5-7 ára þarna...
En nú verð ég að fara og bjarga heiminum, hafið það gott! Sumarkveðjur, Anna í hitanum
sunnudagur, apríl 29, 2007
Sólskinsdagur
...sagði
Anna Bj.
-
sunnudagur, apríl 29, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli