sunnudagur, apríl 22, 2007

Varúð, löng færsla

Góðan daginn, perrar mínir og frúr. Ég held það sé orðið löngu tímabært að skella inn einni færslu. Til þess að auðvelda ykkur lesturinn, þá hef ég ákveðið að búa til efnisyfirlit þannig að þið getið lesið það sem ykkur finnst spennandi og sleppt því að lesa það sem ykkur finnst ekki spennandi. Oh, ég er svo sneddí! Segið svo að ég geri aldrei neitt fyrir ykkur...

1. Vinnublaður
2. Skólinn
3. Djammað í Tiger
4. KISS-partý
5. Þegar Anna fékk blóðlús
6. Óvæntur hittingur
7. Anna kóngulóarbani, annar kafli
8. Myndir að heiman
9. Lokaorð

1. Vinnublaður
Já, vinnan gengur betur en ég þorði nokkurn tímann að vona. Tungumálaörðugleikar hafa ekki verið miklir hingað til á milli mín og kúnnana, en mikið vorkenni ég þeim sem biðja um alkóhól sem aðeins er geymt bak við búðarborðið, þá veit ég nefnilega ekkert í minn haus... Nema ef fólk biður um Geyser, það er nefnilega íslenskt brennivín. Vinnufatnaðaðurinn er með allra skársta móti, og svei mér ef maður lítur ekki bara nokkuð vel út í græna bolnum! Ég hef hins vegar ekki fengið neina peysu enn sem komið er, ég er nefnilega víkingur frá Íslandi og þeim á ekki að verða kalt þegar þeir fylla á frystinn... að sögn yfirmanns míns.

2. Skólinn
Núnú, skólinn gengur svona líka ljómandi vel. Ég flaug eins og fuglinn fljúgandi yfir á þrep fjögur, enda svo sem ekki við öðru að búast. Og ekki nema 60% fall í bekknum. Reyndar hrundi tilvera mín örlítið þegar ég komst að ég ætti að skipta um kennara, en þá greip ég til mótmælaaðgerða, fékk hina sem komust áfram á þrep fjögur í lið með mér og barðist fyrir því að fá að hafa minn heittelskaða Jan áfram sem kennara. Og sjá, það tókst! Reyndar eru sumir nemendur alls ekki sáttir við mig (og hina sem ég fékk í lið með mér) því þeir vilja alls ekki hafa Jan sem kennara, en ég meina hey, bjargi sér hver sem betur getur!

3. Djammað í Tiger
Á laugardaginn í seinustu viku lagði ég leið mína niður í bæ eftir vinnu í þeim tilgangi að finna mér hovedbanepillur (einkahúmor fjölskyldunnar), enda hálfveik og jafnvel bara fárveik ef eitthvað er. Og ekki hafði ég tíma til þess að vera veik, því ég ætlaði skrallið seinna um kvöldið. Í bænum þurfti ég að ganga framhjá Tiger (eins og verslunin Tiger heima) og þá heyrði ég allt í einu tónlist sem mér fannst áhugaverð. Og enn áhugaverðara fannst mér að tónlistin kom frá efri hæð Tiger-búðarinnar. Ég skellti mér að sjálfsögðu inn og þá var hljómsveitin Klezmofobia að halda upp á það að vera búin að selja 10.000 eintök af geisladisknum sínum í Tiger og einnig voru tónleikarnir haldnir í tilefni opnunar míníkaffihúss Tigers. Boðið var upp á kampavín, gos, snakk og nammi í boði hússins. Ég hlammaði mér á mitt gólfið og hlustaði á tónleikana til enda, enda spilaði einn hljómsveitarmeðlimurinn á klarinet og það fannst mér ekki leiðinlegt, hoho. Þetta var svaka stuð og allir drifnir með í hringdans, það er nefnilega svo gott fyrir línurnar... Frá því er skemmst að segja, að þegar tónleikarnir voru búnir var búið að loka öllum verslunum miðbæjarins og ég hélt því heim á leið verkjatöflulaus og hálf meðvitundarlaus af höfuðverk.

4. KISS-partý
Þegar ég var komin heim af Tiger-tónleikunum ákvað ég að leggja mig í hálftíma áður en ég tæki mig til fyrir KISS-partýið ógurlega sem átti að hefjast stundvíslega klukkan átta. (KISS, skólinn minn, átti 36 ára afmæli og þess vegna var partý fyrir alla nemendur og kennara). En mér tókst að sofa vekjaraklukkuna mína af mér og svaf því óvart í þrjá klukkutíma. Mætti ég því ekki á svæðið fyrr en klukkan hálfellefu, en það kom ekki að sök því ég skellti mér beint á dansgólfið og tjúttaði allduglega við hressandi kántrísveiflu þar til ballið var búið klukkan tólf. Kannski ég taki það fram að mér tókst að sofa frá mér hausverkinn í þessum þriggja tíma lúr og hef ekki fundið fyrir honum síðan.

5. Þegar Anna fékk blóðlús
Það er ekkert alltaf auðvelt að vera ég. Dag einn í vinnuni vantaði mig meiri skiptimynt og þurfti þar af leiðandi að opna eitt svona búnt af fimm-köllum. Þeir sem hafa unnið í búð vita hvernig þessi búnt eru, en til útskýringar fyrir ykkur hin, þá er 20 stykkjum af fimmköllum vafið inn í pappír svo úr verður búnt og til þess að ná fimm köllunum út úr pappírnum verður maður að slá búntinu þéttingsfast í kassann, svona eins og þegar maður brýtur egg. Nú er ég þrælvanur búntaopnari (opna skrilljón svona búnt á dag), en eitthvað klikkaði við þetta búnt svo vísiputtinn á mér varð óvart á milli búntsins og kassans. Ég sem sagt klemmdi mig, og horfði í örvinglan minni á stóra blóðblöðru myndast á vinstri hliðinni á fingurgómi vísifingurs hægri handar. Á tímabili leit út fyrir að blaðra myndi springa og blóðið fossa yfir búðarborðið, en það slapp fyrir horn. Eftir nokkrar mínútur ákvað ég þó að loka kassanum mínum og fara að leita mér að plástri, því það væri leiðinlegra ef blaðra myndi opnast auk þess sem þetta var svo vont að ég gat ekki notað vísifingurinn í eitt eða neitt. Ég fór til yfirmanns míns og greindi honum frá áhyggjum mínum á bjagaðri dönsku en hann hló bara og sagði að þetta væri nú bara blóðlús og að hann nennti ekki að leita að plástri. Og ef að blaðran opnaðist, þá tjah, væri það seinni tíma vandamál... En sem betur hélt lúsin sig á mottunni. Núna, nokkrum dögum síðar, er blaðran sjálf horfin, en blóðið er ennþá á sínum stað. Ekki beint fallegt. Af tillitssemi við ykkur ákvað ég að sleppa því að taka myndir af þessu...
6. Óvæntur hittingur
Á fimmtudaginn seinasta ætlaði ég að vera aldeilis dugleg og skella mér niður á skattskrifstofu fyrir vinnu og láta reikna út fyrir mig nýtt skattkort. Einnig ætlaði ég að kaupa mér inneign og brasa eitthvað fleira. En eitthvað gekk það ekki alveg samkvæmt planinu og allt tók helmingi lengri tíma en ég ætlaði mér (langar raðir og bilanir í inneignarkerfum) og sá ég því ekki fram á að hafa tíma til þess að skella mér í skattinn fyrir vinnu. Ákvað ég því að ráfa pínulítið um Strikið og kaupa mér tyggjó í 7-eleven (búð). Núnú, þarna strunsaði ég áfram eins og mér einni er lagið og allt í einu kom einhver aftan að mér og spurði mig að einhverju. Ég dæsti og ætlaði nú aldeilis að hella mér yfir manneskjuna sem væri ábyggilega einhver að betla peninga fyrir dýraverndunarsamtök þannig að ég snéri mér við. Ég náði þó ekki að stynja upp nema hálfu orði því að uhh, nei bíddu nú við, nei hey, ég þekki þig!!! Já gott fólk, þarna var hún ljóslifandi komin, dönsk vinkona mín sem ég hef ekki séð frá því í Danmörku í 10. bekk árið 2003! Hún heitir Anne Katrine og var önnur tveggja pennavinkvenna minna í 10. bekk, þegar bekkurinn minn tók þátt þátt í verkefni sem gekk út á það að fyrst kom danskur bekkur frá Jótlandi í heimsókn til Mývatnssveitar haustið 2002 og bjó inni á heimilum okkar Íslendinganna, og síðan fór bekkurinn minn til Danmerkur vorið 2003 og bjó inni á heimilunum hjá Dönunum. Og ég bjó sem sagt heima hjá Anne Katrine. Þetta var nú aldeilis og gjörsamlega óvænt, og ég er mest hissa á því að hún skuli hafa þekkt mig aftur, því ég hefði aldrei þekkt hana ef ég hefði bara séð hana úti á götu. Hún lítur nefnilega öðruvísi út en mig minnti, en það eru náttúrulega fjögur ár síðan ég sá hana seinast svo það er kannski ekki skrítið. En þetta voru aldeilis skemmtilegir endurfundir og þvílík tilviljun því Anne býr ekki í Köben, heldur var hún stödd í námsferð í bænum. Síðan ég hitti hana er ég búin að vera í þvílíku nostalgíukasti og hrekk oft upp úr dagdraumum um að vera aftur stödd í kanóferð við Himmelbjerget með varðeld, gítarspil og ýmis gelgjuleg prakkarastrik sem ég ætla ekki að nefna hér, enda ekki sumt ekki prenthæft af ýmsum ástæðum. Ahh, þú ljúfa líf... Reyndar er Anne ekki eini Daninn sem ég hef hitt aftur frá því 2003, en þetta var bara svo gjörsamlega óvænt að ég hreinlega ræð ekki við sjálfa mig. Svona er heimurinn lítill.
7. Anna kóngulóarbani, annar kafli
Nú líður óðfluga að sumri og það þýðir aðeins eitt: kóngulær! Eflaust muna einhverjir eftir færslu minni frá því í janúar þar sem ég barðist fyrir lífi mínu gegn risastórri kónguló sem var lífsseigari en fjandinn sjálfur. Einhverja ættingja hefur kóngulóin greinilega átt, því um daginn þegar ég stóð í sakleysi mínu við hillusamstæðuna mína og var að velja augnblýant til þess að vera með þann daginn, þá sá ég eina ljóta glærgula kónguló stara á mig á veggnum við hliðina á samstæðunni. Ég reyndi að halda ró minni og bjó í huganum til pottþétt plan til þess að murrka lífið úr ógeðinu. Ég vildi ekki byrja á því að berja drusluna með skónum mínum, því hugsanlega væri hún lífsseig og myndi hlaupa bakvið samstæðuna og ég nennti ekki slíkum eltingarleik. Tók ég þá til þess bragðs að sprauta á hana ilmvatni og ætlaði ég að það myndi gera sama gagn og skordýraeitur. Rangt. Þess í stað sturlaðist kóngulóin (enda alkóhól í ilmvatni og hún hefur sennilega fengið aðeins of mikið í aðra tána) og hljóp í burtu eins og brjálæðingur. Ég greip þá annan sandalann minn og dúndraði honum á kóngulóna rétt áður en hún náði að hlaupa bakvið hillusamstæðuna. Druslan vankaðist léttilega og breytti um hlaupastefnu. Þá náði ég í gelspreyið mitt (fljótandi gel í spreybrúsa til að setja í hárið) og sprautaði á kvikindið og hefði nú haldið að kóngulóin ætti að stífna upp á nokkrum sekúndum. En ekkert gerðist nema að kóngulóin stóð kyrr í hálfa sekúndu og hélt svo áfram að hlaupa, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til þess að spauta meira geli á fórnarlambið. Þá ákvað ég að prófa meira ilmvatn en ekkert dugði. Þá hóf ég skóinn minn aftur á loft og barði drusluna allduglega. Þegar ég hélt að hún væri nú loksins dauð náði ég í pappír, tók hana upp og ætlaði að kasta henni í ruslið. En þá byrjaði kóngulóin að sprikla og mér brá svo mikið að ég missti hana á gólfið. Á þessum tímapunkti var ég orðin sjóðandi af bræði og hefði getað farið að grenja þá og þegar. Ég ákvað að gera lokatilraun með skónum mínum, og eftir sjá, eftir 5-6 högg smassaðist kóngulóin loksins og var þá greinilega orðin alveg dauð. Þá skóf ég hana upp, fór með hana fram og sturtaði henni í klósettið. Ég verð að muna eftir því að kaupa skordýraeitur.
8. Myndir að heiman
Eftirfarandi myndir fékk ég sendar að heiman og langar til þess að deila með ykkur.
Þetta er Lárus minn, ástin mín eina og sanna. Hann er Toyota Corolla árgerð 1985, fjögurra gíra (og svo plús bakkgír) og með sjálfvirku innsogi. Í honum er enginn snúningsmælir, en það er samt allt í lagi því í staðinn er svona rautt ljós og grænt ljós... Þessi mynd er tekin í sumarveðrinu góða heima á Grænavatni fyrir nokkrum dögum síðan. Reyndar færði hún móðir mín mér þær fréttir í dag, að nú væri sko kominn miklu miklu meiri snjór heima... Ég skellihlæ.

Þarna á myndinni má sjá svartan svan! (Nei Kristinn, það er flottara að kalla þetta svartan svan heldur en svarta álft). Hann var heima á Grænavatni í nokkra daga um daginn og vakti svo mikla lukku að það var farið með allan grunnskólann heima heim í hlað að skoða. Gvööð, hvað hann er mikið rassgat! (Svanurinn altså).

9. Lokaorð

Já, þetta var nú heljarinnar færsla og ég vona að þið hafið notið vel. Sjálf býst ég ekkert endilega við því að blogga aftur fyrr en um næstu helgi, ég er bara svo ferlega upptekin þessa stundina. En við skulum sjá til, við skulum sjá til. Ekkert er útilokað í þessum málum...

Hafið það gott ástarpungarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna sem þarf að laga til

Engin ummæli: