mánudagur, apríl 09, 2007

Ég veit ekki hvort eða hveeernig eða hveeenær ééég kemst heim

Jú, mikið rétt, færsla númer tvö í dag. Nú held ég að sumir verði glaðir, hoho! Ykkur að segja, þá er ég svo uppfull af hugmyndum að bloggfærslum að ég er búin að búa til lista yfir allt það sem ég þarf að blogga um, svona svo ég gleymi því ekki. Já, þessi bloggpása undanfarið hefur greinilega skilað sínu.


Annars hafði ég nú ekki hugsað mér að blogga aftur fyrr en á morgun, en eftir nánari umhugsun þá ætla ég að nota morgundaginn í önnur verk. Því fær þessi færsla að líta dagsins ljós núna í kvöld.


Í dag er annar í páskum. Klukkan 14 ákvað ég að strunsa út í Nettó og kaupa mjólk, enda mjólkurlaust með öllu hér á bæ. Gerði ég ráð fyrir að búðin væri opin, enda gróft mannréttindabrot að hafa matvöruverslanir lokaðar á mánudögum. En svei, í Nettó var allt lokað og læst, þannig að ég ákvað að hoppa upp í næstu lest á Islev-station (lestarstöð sem er beint á móti Nettó) og fara svo út á næstu stöð sem heitir Jyllingevej-station, því þar í grenndinni er að finna DøgnNetto sem er með mun betri opnunartíma (og hærra verð) og ég hafði sterkan grun um að þar væri opið.


Ég hoppaði sem sagt út úr lestinni á næstu stöð (Jyllingevej-station) og byrjaði að strunsa í átt að DøgnNetto. Ég var eilítið tímabundin, því ég þurfti að vera komin heim aftur klukkan 15:00 til þess að horfa á Gilmore Girls í sjónvarpinu. Gekk ég lengi vel eftir götunni og hvergi fann ég DøgnNetto, þrátt fyrir að vita ósköp vel hvar sú búð væri staðsett því ég fer þangað oft og iðulega þegar mig vantar mjólk á sunnudögum.
Já, þetta var nú eitthvað skrítið, því ég mundi ekki eftir því að það ætti að vera svona mikil brekka í götunni. Hvar var eiginlega búðardruslan? Eftir að hafa strunsað lengi í viðbót ákvað ég að drífa mig bara aftur heim, því ekki vildi ég missa af Gilmore. Til þess að komast heim þurfti ég að fara aftur að lestarstöðinni Jyllingevej-station og ganga meðfram brautarteinunum, því gatan mín liggur meðfram þeim. (Húsið mitt er sem sagt á milli Islev-station og Jyllingevej-station, hentugt!).


Núnú, þegar ég kem aftur að Jyllingevej-station finn ég hvergi götuna mína. Hún var alveg gjörsamlega gufuð upp! Ég snérist þarna í marga hringi í kringum sjálfa mig og var alveg eins og hauslaus hæna. Hvernig getur gatan bara horfið? Tíminn leið og það styttist óðfluga í Gilmore. Ég ákvað að sýna smá lit og byrjaði að ganga meðfram einhverri götu sem lá meðfram lestarteinunum því ég sá ekkert annað í stöðinni. Ég hafði ekki tíma til þess að bíða eftir næstu lest og arkaði því eftir götunni á fullum styrk. En þetta var nú samt eitthvað skrítið. Hvar var eiginlega gatan mín? Sjitt, ein orðin villt... Ég ákvað þá að fara aftur að lestarstöðinni og bíða eftir næstu lest, það yrði bara að hafa það þótt ég missti af byrjuninni á Gilmore.


Svo allt í fattaði ég þetta allt saman. Ég hafði farið vitlausu megin út úr lestarstöðinni og þess vegna leitað að DøgnNetto í vitlausri átt, og gekk þar af leiðandi líka í vitlausa átt þegar ég ætlaði að finna götuna mína! Ég sem sagt speglaði allt! Ég hef nefnilega aldrei farið út á þessari lestarstöð áður, því ég hef alltaf bara gengið, hahaha. Held ég haldi bara áfram að ganga.


En svo við slúttum þessari sögu, þá kom ég heim klukkan fimm mínútur í þrjú, mjólkurlaus, og rétt náði að setjast niður áður en Gilmore Girls byrjaði. Hjúkket. Já, þetta var nú skemmtilega saga, hósthóst.


Fyrir þá sem skildu hvorki haus né sporð á þessari færslu, þá bjó ég til svona líka (g)læsilegt kort handa ykkur! Rauðu s-in tákna lestarstöðvarnar og húsið mitt er á bláa punktinum.

Hafið það gott! Bestu kveðjur, Anna hin áttavillta

Engin ummæli: