Ég get svoleiðis svarið það, það er gjörsamlega alltaf helgi! Og 1. júní á morgun, sem þýðir að það vantar fjóra daga upp á að ég hafi búið í útlöndum í tvö ár. Jadúddamía! Finnst ansi stutt síðan ég pakkaði vídjókaramellunni minni og sprengjunni ofan í tösku og hélt á vit ævintýranna. Óska ég hér með eftir að fá göngugrind og ókeypis aðgang að aldraðrabingói í afmælisgjöf í sumar, óboj.
Annars var stanslaust stuð í vinnunni í dag. Einn fylliraftur ákvað t.d. að fá sér dúr fyrir framan vínhillurnar okkar, góður staður! Þeir hjá 112 voru of uppteknir til þess að koma og keyra manninn heim (sem var nú ekki með nein læti, ætlaði bara rétt að leggja sig) og tók það yfirmann minn 40 mínútur að tala hann á að standa upp, þurfti náttúrulega að passa að hann sofnaði ekki... og hver þurfti að taka við stjórninni á búðinni á meðan? Hmm, jú, ég. Vúhú.
Svo er ég loksins búin að finna bókasafnið niðri í Kastrup, jess! Það tók ekki nema svona 10 göngutúra að leita að því, komst að því í göngutúr númer níu að það væri búið að flytja safnið og kominn leikskóli í staðinn, ekki nema vona að ég fyndi ekki staðinn... Í göngutúr númer tíu var ég búin að fá nýja heimilisfangið og fann safnið, í tíu mínútna göngufæri frá hýbýlum okkar. Já þetta er hið allra glæsilegasta safn, enda aðalbókasafnið í Tårnby-kommúnu (þar sem Kastrup er). Þar komst ég í glæsilegan fjársjóð þegar ég fann nótnasafnið þeirra og grét svo gleðitárum þegar ég komst að því að þar er líka hljómborð til afnots fyrir almenning :D Já, þetta eru svo sannarlega gleðileg tíðindi svo ekki sé meira sagt. Reyndar sakna ég þess að þeir skuli ekki vera með klassískar nótur, heldur eru þarna einungis popplaga- og rokknótur, en ég gat skemmt mér heilmikið með nótur af Kim Larsen lögum :D Þvílík gleði hér á bæ skal ég ykkur segja, nú mun ég eyða öllum mínum frístundum á bókasafninu...
Annars er sumarið að verða komið hérna í Danmörku og því ekki seinna vænna að koma sér í bikiníform, svona fyrst að maður býr í korters-göngufæri frá ströndinni. Kúrinn "í kjólinn fyrir jólin um mitt sumar" hófst fyrir þremur vikum síðan og er ég búin að standa mig afskaplega vel. Kúrinn er saminn af sjálfri mér og virkar þannig að ég borða hollt alla daga vikunnar nema laugardaga, þá má ég hakka í mig súkkulaði og allskonar jukki. Ég er einmitt búin að standa mig afskaplega vel í dag (laugardagur) og fékk mér súkkulaði í hádeginu og popp í kvöldmat. Já, maður verður nú að fylgja kúrnum!
Á morgun er spáð skrilljón stiga hita (er mér sagt) og að því tilefni erum við Peter búin að bjóða mömmu hans Peters og systur hans ásamt manni hennar og syni(17 mánaða aaalgjör snúlli!) í grill niðri í Kastrup. Erum einmitt búin að byrgja okkur upp af einnotagrillum og ætlum að grilla á einu af túnunum í kringum húsið, því það má ekki grilla á svölunum (er heldur ekki viss um að það væri pláss fyrir alla í íbúðinni okkar, hahaha, verðum vonandi komin í nýja íbúð í lok árs, krossaputta!). Já maður er alltaf eitthvað að bralla.
Heyrði svo aðeins í Ágústu áðan. Hún er svo upptekin að það liggur við að maður þurfi að panta símatíma hjá henni í gegnum e-mail, hehe ;) Eeeen planið er allavega að hafa hitting á fimmtudaginn, það verður nú aldeilis gaman, finnst eins og það sé öld síðan við hittumst seinast.
En best að fara að sofa, þarf að vakna snemma í fyrramálið og drífa mig niður í Kastrup (er í Vanlöse núna), klára að kaupa inn fyrir grillpartíið og græja sallat með vínberjum til að hafa með grillinu (hún Hildur Eva mín kenndi mér að setja vínber í sallöt, þið ættuð að prófa það líka!) og vökva blómið og svoleiðis (Peter er búinn að laga til, myndarlegur ;) ). Annars er nú alveg ótrúlegt að þetta blóm skuli enn vera á lífi, því það er í umsjá minni og það veit Guð að ég er ekki sú besta í að halda lífi í blómum (er enn á bömmer eftir að hafa drepið tvö blóm heima hjá Ragnari sænska í Svíþjóð 2006 og gert hin 9 stykkin vönkuð, er ekki viss um að þau hafi nokkurn tímann náð sér aftur...). Já þessu blómi var sem sagt skellt í mína ábyrgð þegar ég flutti inn, því konur eiga víst að vera svo góðar í að muna hluti. Því segi ég nú bara grey Peter að hafa nælt sér í gleymnustu konu í heimi :D Og svo eru líka ýmsir aðrir hlutir sem mér er gert að muna, svo sem tannlæknatíma og klippingatíma og um daginn varð minn nú heldur móðgaður þegar ég gleymdi næstum því að minna hann á að drekka bjórinn sem hann hafði keypt fyrr um daginn ;)
Jæja, ég er þotin í rúmið, hafið það gott sykurpúðarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna Netto
laugardagur, maí 31, 2008
Komið þið sæl og blessuð
...sagði
Anna Bj.
-
laugardagur, maí 31, 2008
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli