laugardagur, ágúst 25, 2007

Nej fy fan!

Það er búið að vera fáránlega gaman hjá mér undanfarna daga, hoho.

Á fimmtudaginn hitti ég hana Lilju mína sem er stödd hérna í Kaupmannahöfn þessa vikuna. Og vá, það var ekkert smá gaman að sjá andlit að heiman, hojhoj! Við fórum í m.a. í Christianiu og heilsuðum upp á íbúana þar og tókum dágóða slúðurskorpu yfir sjúklega góðum hamborgurum, enda margt slúðurvænt sem hefur gerst frá því hittumst seinast fyrir 7 mánuðum síðan. Því næst var haldið á Strikið og þar sem hlaupið var á milli skóbúða (ég náði þó mér að óvörum að hemja mig og kaupa ekki neitt, klapp fyrir því!) og þvínæst skildust leiðir þann daginn.

Föstudagurinn var algjört stuð. En þó ekki allt. Eftir vinnu fór ég í dönskuskólann eins og alltaf, og fékk þá að vita að fjárhagsdeilurnar milli Kaupmannahafnarkommúnu og skólans míns eru komnar á mjög alvarlegt stig og það gæti jafnvel farið svo að skólanum sé bara lokað fyrir fullt og allt :( Það verður reyndar reynt að finna út úr málinu (sem ég nenni ekki að farað útskýra hér) í næstu viku, en ef það tekst ekki verður ekki meira kennt :( Sem er alveg fáránlega ömurlegt, svo við skulum vona það besta og vona að þetta verði ekki meira en bara vikufrí. Ég er sem sagt í fríi alla næstu viku þessa máls, en vonast auðvitað til að málið leysist og ég geti byrjað aftur í skólanum eftir næstu viku.

En já, þetta var leiðinlegi parturinn af föstudeginum, svo byrjaði það skemmtilega. Eftir dönskuskólann ákváðu nokkrir að skella sér á bar í tilefni af því að hafa komist áfram á þrep níu (ef það verður þá eitthvað þrep níu) og var skálað vel og mikið fyrir skólanum. En ég stoppaði þó ekki lengi, því ég fékk sms frá henni Lilju minni um að það væri djamm í aðsigi, svo ég fór í ofboði heim, skellti mér í sneggstu sturtu í heimi (var bara 9 mínútur sem er langt undir heimsmeti á mínum mælikvarða), dreif mig í djammgallann og setti svo á mig andlitið í lest sem hristist aðeins of mikið. Og svo var skundað á djammið (ég, Lilja, kærastinn hennar og systir kærastans). Reyndar var klukkan farin að ganga tvö þegar við komumst loksins niður í bæ, en hvað um það. Og já, á leiðinni niður á Strikið (þar sem við ætluðum að djamma) hittum við Lilja einn mann sem spurði okkur til vegar. Hélt hann sjálfur að hann væri algjör fengur og ákvað því að reyna eilítið við okkur, en það eina sem honum tókst var að móðga mig. Já, hann þurfti endilega að skoða hendurnar á okkur Lilju af einni eða annarri ástæðu. Fyrst leit hann á hendurnar á Lilju og það var ekkert út á þær að setja. Því næst reif hann í hendurnar á mér og þurfti að skoða þær líka en það eina sem honum tókst að stynja út úr sér var "Ó mæ gad, ég hef aldrei í lífinu séð svona þurrar hendur! Vá, sérðu þetta? Vá, ég hef bara aldrei séð annað eins. Er þetta ekki vont? Við hvað vinnurðu eiginlega???" Uhh, hvað segir maður eiginlega við svona? Þvílíkt misheppnaður gæji og hann fékk nú bara að sigla sinn sjó.

En já, eftir stopp í 7eleven var haldið á The Dubliner, maður minn sko! Þar hittum við fyrir þrjá sænska sjarmöra og hvorki voru þeir nú ljótir né leiðinlegir greyin. Þeir skyldu samt ekki boffs í dönsku og hoppuðu því hæð sína í loft upp af undrun, aðdáun og gleði þegar ég byrjaði að tala sænsku við þá. Þeir ætluðu nú samt ekki að trúa því að ég hefði einungis dvalist þrjá mánuði í Svíþjóð og voru sannfærðir um að ég ætti einhverja sænska ættingja, því svona sænsku getur enginn talað eftir aðeins þrjá mánuði... Haha. Ég hef nú heyrt þetta nokkrum sinnum áður... ;)

En já, eftir að hafa spjallað við Svíana um stund fór öll hersingin (við Íslendingarnir og Svíarnir) á dansgólfið þar sem dansað var tryllt í tvo tíma eða svo. Þegar ég segi tryllt, þá meina ég að við SPÆNDUM upp dansgólfið við rífandi írska lifandi tónlist. Þetta var alveg brjálað, enda bogaði svitinn af okkur öllum saman á milli þess sem við steppuðum og klöppuðum og snérumst í hringi og hoppuðum og sungum og öskruðum og tvistuðum. Og ég á háum hælum allan tímann (7 cm) og fann ekki fyrir því! Svona er maður orðinn þjálfaður ;) Við yfirgáfum staðinn klukkan hálffimm og ég skakklappaðist heim til mín og var komin í rúmið klukkan hálfsex.

Dagurinn í dag (laugardagur) var líka algjört dúndur. Ég neitaði tilboði þess efnis að mæta í vinnuna og lagði af stað í langa bæjarferð eftir hádegið. Þar uppgötvaði ég alveg meeergjaða verslunarmiðstöð (Rödovre Centrum), veskinu mínu til mikillar mæði. Svo átti ég erindi niður í bæ og var því ekki komin heim aftur fyrr en klukkan sex. Þá dreif ég mig í eldsnögga sturtu (varla mikið lengri en daginn áður) og hafði svo samband við danskan vin minn sem býr í nágrenninu og plataði hann út að borða á pitsustað, enda hafði ég ekkert annað borðað en morgunmat þennan daginn. Eftir að hafa borðað nenntum við ekki heim og ákváðum við þá að þvo bílinn, en vinur minn hafði einmitt verið svo gáfaður að leggja honum undir tré fyrr um daginn, þar sem fuglarnir höfðu greinilega skemmt sér við að drita berjum á kaggann... En í Danmörku er ekkert til sem heitir kústur og vatn, og var því haldið á ekta bílaþvottastöð á bensínstöð! Þar þurfti að borga fullt af peningum til þess að fá að keyra í gegn, en það var samt þess virði því þetta var skemmtilegra heldur en hinn skemmtilegasti rússíbani, jömundur minn! Þvottaprógrammið tók korter og þetta var bara eins og sitja í rússíbanahermi, því bíllinn var kyrrstæður en allskonar tæki og tók hreyfðust í kring svo það var eins og við værum á hreyfingu. Mjög spes. Eftir þvottinn nenntum við ekki ennþá heim, svo þá var ákveðið að rúnta um borgina. Rúnturinn tók fjóra klukkutíma, en á þeim tíma tókst okkur að keyra um Vanlöse, Herlev (þar sem engir veitingastaðir eru svo maður getur ekki pissað), Husum, Bellahöj, Rödovre, Vesterbro, Nörrebro, Christianshavn (fórum meðal annars í Christianiu) og svo þurfti Íslendingurinn náttúrulega að fara á ströndina svo það var brunað á ströndina á Amager... Reyndar var aðeins of kalt til þess að kasta klæðum og fara að synda, en ég fór þá allavega á ströndina þetta sumarið! Eftir að hafa fengið okkur meira að borða (og svona fimm pissustopp fyrir mig) þá þurftu sumir að fara heim til þess að taka vinnuföt úr þvottavél (ekki ég!)... En sjitt, þetta var gaman :)

En nú þarf ég að drífa mig í rúmið, því við Lilja ætlum að taka daginn snemma og skella okkur í Tívolíið eldhressar klukkan ellefu í fyrramálið :)

Góða nótt älsklingar mínir, Anna sem er ennþá jätta bra í svensku :o)

PS. Hmm já, sem sagt góða nótt ef ég skyldi þá fá svefnfrið... Hér í húsinu við hliðina á mínu er nefnilega brúðkaup í gangi og akkúrat núna er sex manna hljómsveit að spila í tjaldi í garðinum og verður að þar til klukkan þrjú í nótt... Samt voða rómantískt, eintóm ástarlög, nú er t.d. verið að spila lag úr Grease (You are all that I want), svaka stuð og stemning :) Ég ætla sko pottþétt að vera með svona í brúðkaupinu mínu (sem er nú samt ekki beint á næstu grösum...)!

Engin ummæli: