Í gær var merkilegur dagur. Já gott fólk, ég átti eins árs útlandaafmæli í gær! Ég flutti til Svíþjóðar þann 4. júní 2006 og hef alls búið í þremur útlöndum og heimsótt eitt að auki síðan þá. Svona er maður veraldarvanur, og mikið óskaplega líður tíminn hratt!
Annars eru engin ósköp að frétta af mér. Ég fór út að borða á sunnudagskvöldið með nokkrum Grænavatnsættingjum og fannst mér það afar ágætt að geta loksins rætt við fólk á íslensku! Það er rosalega fyndið að þegar maður er varla búinn að tala íslensku svo heitið getur í fimm mánuði samfleytt, þá heyrir maður sjálfan sig tala íslensku úr fjarlægð. Sem sagt, maður talar, en finnst ekki eins og maður sjálfur sé að tala heldur að einhver annar sé að tala. Sem veldur því einmitt að manni finnst maður tala óskírt og málfræðilega vitlaust. Afar spes. En kvöldið var sem sagt hið allra fínasta og ég fór vel södd heim!
Áðan ákvað ég að leggjast út í sólbað í 24 stiga hita og glampandi sólskini. Ég bara skil þetta ekki! Ég er með afar brúna útlimi og afar mikið bikinífar og sandalafar (frá því seinasta sumar...) en andlitið á mér er alltaf það seinasta sem tekur á sig lit. Það þykir mér afar pirrandi, og hefi ég því planað að leggjast í sólbað eins oft og ég get til þess að vinna bug á vandanum. En engar áhyggjur, ég sé ekki fram á að hafa mikinn tíma til sólbaða í sumar, svo ég efast um að ég breytist í svertingja...
Annars held ég að ég rölti út í búð núna. Verður það töluvert labb, því að í dag er Grundlovsdagen (einhversskonar 17. júní, fyrir utan það að hér í landinu er ekkert húllumhæ) og flestar búðir því lokaðar. Og þar sem ég er ekki búin að fá útborgað (urrr) þá á ég ekkert lestarkort! Veit ekki alveg hvernig ég ætla að koma mér í vinnu í fyrramálið, en það er seinnitímavandamál...
Og svo hafði ég nú líka planað að laga til í dag og þvo þvott og svona þar sem ég mun ekki hafa mikinn tíma til slíkra verka á næstunni, en ég mun svo gott sem búa í vinnunni næstu tvær vikurnar. En ég nenni ekki að laga til í dag. Svo á ég líka að skila ítarlegri grein á dönsku um stjórnarfars- og stjórnmálasögu sögu Íslands í dönskuskólanum á morgun, en ég get nú eiginlega sjálfri mér um það kennt, því ég nennti ekki að tala um málfræði í dönskutímanum í gær og þóttist þess í stað hafa þennan gífurlega áhuga á pólitísku landslagi Danmerkur, Íslands, Færeyja og Grænlands (já einmitt!) og þegar kennarinn sá hversu áhugasamir (áhugasamur!) nemendur voru í bekknum ákvað hann að við myndum öll að skila stjórnmálaskýrslu um heimalönd okkar á morgun. Doh. Guði sé lof fyrir gúgúl, því ég rétt svo man af hverju við höldum upp á 17. júní...
En nú verð ég að skunda út í búð og hver veit nema að ég taki pínu göngutúr í garðinum góða og kíki smá á mannlífið.
Hafið það gott ástarpungar! Bestu kveðjur, Anna sem er alveg ferlega kvefuð.
þriðjudagur, júní 05, 2007
VARÚÐ - Afar óspennandi færsla
...sagði
Anna Bj.
-
þriðjudagur, júní 05, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli