laugardagur, júní 09, 2007

Of heitt!

Æi damn, ég ætlaði að skella inn fullt af myndum handa ykkur, en nei. Ég gruna tölvuna mína um græsku, því hún vill heldur ekki leyfa mér að nota Skype! Ég er farin að hallast á það að þetta grey mitt sé alveg á síðasta snúningi, en ég meina hey! Flýtur á meðan ekki sekkur, og ég get hvort sem er ekki hugað að tölvukaupum þegar ég fæ ekkert úborgað... Afar sneddí sparnaðarleið!

En já, fyrir þá sem eru afar forvitnir um hvaða myndir ég ætla að sýna ykkur, þá er það góð myndasyrpa af mér og Kristni litlabró, en hann var einmitt staddur hér í Kaupmannahöfn í fyrradag. En nánari sögur af þeim hittingi þegar tölvunni þóknast að birta myndirnar.

Annars er þetta búinn að vera afar ánægjulegur dagur. Ég reis úr rekkju stundvíslega klukkan fimm í morgun og mætti í vinnuna klukkan sjö. Yfirleitt er það ekki mikið gleðiefni að þurfa að vakna klukkan fimm, en ég var í svo súpergóðu skapi að ég bókstaflega dansaði um með brauðkassana í vinnunni við dúndurgóða danstónlist úr gettóblasternum. Alltaf gaman á morgunvöktum fyrir opnun... Og svo gerðist ýmislegt sem ég er viss um að ég megi ekki blogga um og það kom mér í svo ferlega gott skap að ég sat hálfhlægjandi á kassanum það sem eftir lifði vinnudags. Og það besta var náttúrulega þegar yfirmaðurinn spurði mig hvort ég vildi nokkuð fara aaaðeins fyrr heim í dag vegna yfirmönnunar á vaktinni... Ég þurfti að hugsa í smástund áður en ég svaraði, en ekki af því að ég vissi ekki hverju ég ætlaði að svara, heldur því ég þurfti að hugsa um hvort ég skyldi manninn rétt! Fara fyrr heim? JÁ TAKK FYRIR PENT!!! Og úr varð að ég fór heim klukkan tólf í staðinn fyrir klukkan þrjú, klöppum fyrir því og hallelúja! Á leiðinni heim kom ég við í Fötex (æh, svona eins og Hagkaup) og fann mér þessa fínu fína þvottagrind sem tekur heila 20 metra af þvotti! Jess, og það á líka þessum spottprís. Hér í húsinu sem ég bý í er hitinn nefnilega tekinn af ofnunum yfir sumartímann (þessir Danir...) og einhvern veginn þarf maður nú að þurrka fötin sín, og er þetta skömminni skárra en að hengja buxur og boli á skápshurðirnar á hillusamstæðinnu minni!

Annars má ég til með að segja ykkur hvað ég er orðin góð í dönsku. Eftirfarandi átti sér stað í vinnunni núna í vikunni.

Ég sat á kassa í smekkfullri búð af viðskiptavinum. Einn kúnninn spurði um barberblade (rakvélarblöð) sem eru geymd á kassanum. Ég sá engin rakvélarblöð hjá mér, og kallaði þá á næstu manneskju sem sat á kassa ansi langt frá mínum kassa. Fyrir þá sem ekki vita, þá ber maður fram orðið barberblade sem "bebjíeblee(ð)" (feitletrunin er áherslupunkturinn í orðinu). Eftirfarandi (kallandi) samtal átti sér stað:

Anna: Hey xxx, ertu nokkuð með babíblaað hjá þér?
xxx: Er ég með hvað???
Anna: Ég meina sko bebíííbleeð! Nei, ég meina babjableeð! Nei ég meina, æi, hvernig segir maður þetta eiginlega?
Kúnni: Bebjíebleeð!
Anna: Já akkúrat, ert nokkuð með svona ba-ba-ba-bleeehhhhh... Æh, hvað sagðirðu aftur að maður ætti að segja?
Kúnni: Bebjíebleeð!
Anna: Já, xxx ertu nokkkuð með bebjableeð? Nå for Søren (fjárinn sjálfur), ég get ekki sagt þetta!!!

Á þessum tímapunkti voru allir nærstaddir kúnnar farnir að skellihlæja og tala um hvað ég væri ferlega fyndin og ég roðnaði að sjálfsögðu niður í rassgat á milli helstu hláturgusanna hjá sjálfri mér. Frá því er skemmst að segja að xxx var heldur ekki með nein rakvélablöð...

Og alltaf er maður að eyða peningum, jafnvel þótt maður fái ekkert útborgað. En já, ég fór sem sagt út í búð eins og gengur og gerist og sótti björg í búið. Á heimleiðinni voru tvær stelpur (u.þ.b. tíu ára) búnar að planta sér á miðja gangstéttina í götunni minni með borð og glös og voru að selja vatn á tvær (danskar) krónur glasið. Og ég hef ekki hjarta í mér að ganga framhjá slíku eins og ekkert sé (au-pair dvölin mín hafði greinilega áhrif á mig), og sérstaklega ekki þar sem ég bý nú í húsinu við hliðina á þessum mikla sölubás. Svo ég vatt mér að stúlkunum og sagðist skyldu fá eitt glas í 27 stiga hitanum og glampandi sólskininu og logninu (ég hef svo sem heyrt að veðrið heima á Fróni sé fínt líka...). Fyrir þessar tvær krónur fékk ég svo vatn í einn fjórða úr glasi og sogrör! Ég hélt ég myndi fara yfirum, mér fannst þetta svo skelfilega krúttlegt... Drakk ég svo vatnið með bestu lyst og þakkaði kærlega fyrir mig. Jájá.

En jæja, nú er klukkan alveg að verða hálfátta (að kvöldi til) og ég get tæplega haldið mér vakandi lengur (hef ekki sofið mikið undanfarið sökum vinnu og skóla og annarra anna). Ætla ég því að skella mér í snögga sturtu (haha, náðuð þið þessum brandara? Ég fer ALDREI í snögga sturtu!) og skríða svo upp í rúm og vera smá andvaka vegna hita og vakna svo í svitakófi á morgun. Hugsanlega tek ég daginn snemma og skelli mér í Tívolíið, svona fyrst ég á árskort sem ég borgaði með peningunum úr peningaskápnum í vinnunni (nei, ég stal þeim ekki! En svona er það að fá ekki útborgað...).

Góða nótt lömbin mín! Krestenn, ég reyni svo að skella inn myndunum glæsilegu á morgun ásamt lýsingum á snargeggjuðum rússíbanastjórum og fyrirsætuhæfileikum okkar systkina (hóst hóst!). Bestu kveðjur, Anna sem er alveg að sofna.

Engin ummæli: