Jæja, hér kemur ein af mínum fátíðu færslum. Mikið agalega er ég orðin latur penni!
Ég held þó að ég byrji þessa færslu á að taka saman nokkrar af mínum aðferðum til þess að drepa kóngulær, en eins og gefur að skilja, þá er ég orðin Snillingur með stóru S-i í þeim málum. Um að gera að safna þessu öllu saman á einn stað. Þetta er fyrir þig Elísa mín (sjá komment við færslunni hér fyrir neðan):
- Brúnsápa. Ég hef ekki fundið neinn tilgang fyrir brúnsápubrúsann sem er inni á baði, annað en að drepa kóngulær með honum. Hentar hann mjög vel til blóðúthellinga af slíku tagi, enda í afar hentugri stærð og þyngd.
- Límband. Já, þetta fattaði ég alveg sjálf! Stundum er brúnsápubrúsinn góði ekki alveg við höndina, og þar sem ég hef engan sérstakan áhuga á að nota skóna mína til þess að smassa ferlíkin, þá hef ég tekið á það ráð að setja límband yfir kóngulærnar þannig að þær festist í því, taka límbandið svo aftur upp og horfa á skrímslin engjast sundur og saman í smástund, og svo krem ég þær með því að brjóta límbandið saman. Oh, ég er svo sneddí!
- Skordýrafæla. Já, frá neyðarópi mínu var svarað og alla leið frá Íslandi fékk ég senda svokallaða skordýra-og músafælu sem virkar þannig að maður stingur henni í samband og þá gefur fælan (sem er afar lítil og nett) frá sér hátíðnihljóð sem skordýr þola ekki. Og ég get svoleiðis svarið það að þetta virkar, allavega hef ég ekki séð nema eina kónguló í herberginu mínu frá því að ég stakk þessu í fjöltengið mitt og sú kónguló var nú eiginlega ekki kónguló heldur einhver Frankenstein svo það er ekki alveg að marka...
- Sturtuhausinn. Þetta er langfyndnasta aðferðin! Ef það eru kóngulær í sturtunni, þá skrúfar maður hausinn af sturtunni og notar svo puttana þannig að það kemur geðveikt mikil buna úr slöngunni. Svo sprautar maður á kóngulærnar og hlær á meðan þær fljúga með baðandi út öllum öngum á leiðinni niður í niðurfallið. Stundum fara þær reyndar ekki beina leið niður í niðurfallið heldur reyna að synda, en hið góða vinnur alltaf hið illa og kóngulærnar hljóta allar að lokum viðeigandi endalok. Ég held reyndar að þetta virki ekki með kakkalakka og önnur skordýr með harða skel (járnsmiði og annað slíkt) því ég held að það sé ekki hægt að drekkja slíku heldur myndi það bara skríða upp aftur...
Já, þetta var svona stutt samantekt. Og ég ítreka það enn og aftur að það virkar ekki að sprauta ilmvatni og gelspreyi á þessi grey, þau sturlast bara og verða enn erfiðari viðureignar.
Og frá kóngulóm að öðrum skriðdýrum. Já kæru lesendur, sniglarnir! Hér eru ekki ánamaðkar á götum úti eins og heima, heldur fyllast allar gangstéttir af brúnum, húslausum sniglum eftir klukkan hálftíu á kvöldin. Er þetta mér til mikilla trafala, því nú þarf ég alltaf að stara niðurfyrir lappirnar þegar ég er á ferðinni á kvöldin eftir klukkan hálftíu, sem kemur fyrir svona 4-5 kvöld í viku. Ástandið væri þó skárra ef það væri myrkur úti og ég myndi ekki taka eftir því þótt ég myndi trampa ofan á nokkur stykki, en þar sem að hér er aðeins dimmt á milli svona ellefu á kvöldin og þrjú á nóttunni (og ég alltaf á ferðinni annað hvort fyrir eða eftir þann tíma, hósthóst) þá er þetta mér afar hvimleitt. Þessir sniglar eru nefnilega svo miklar rúsínur að það hálfa væri nóg, og ég hef það ekki í mér að stíga ofan á þá. Og í gær fékk ég næstum því eggjaverki og varð bleik þegar ég sá einn brúnan snigil sem var búinn að krækja sér í nokkur strá með halanum og var að burðast með þau greyið yfir alla gangstéttina... Oh, ég fékk nú bara tár í augun, þvílíkt krútt. En sem sagt já, bölvaðir sniglarnir.
Annars hefur vikan farið í mestlítið. Jú, ég er búin að eyða samtals svona sex klukkutímum í það að fara í bæinn og kaupa mér föt, og ég hef ekki keypt mér eina einustu flík! Ég er samt búin að komast að því að þessi eilífu vandræði mín með að kaupa á mig föt eru sennilega ekki sálræn, heldur er þetta allt saman fatahönnuðunum að kenna. Það eru bara ekki búin til flott föt! Og ég sem er búin að ákveða að eyða XX.000 kalli í föt (já, maður fær ágætis laun í Netto!) sama hvað tautar og raular, tjah, hvað á maður að gera? Kaupa saumavél og sauma sjálf? Yeah right, eitthvað hugsa ég með hryllingi til allra hryðjuverkanna sem ég framleiddi í handavinnu þarna í den, get ég meðal annars nefnt flíspeysu í afar vafasamri litasamsetningu, vettlinga sem voru prjónaðir með garðaprjóni í skærfjólubláu og bleiku, nokkrar húfur sem að *hóst*mamma*hóst* endaði á að prjóna fyrir mig, að ónefndum treflinum ég prjónaði þegar ég var fimm ára (byrjaði í 17 lykkjum, endaði í 37...). Saumavél segið þið?
Reyndar keypti ég mér tösku í dag! Já, sagan á bakvið þau kaup er afar spennandi og hljóðar nokkurn veginn svona:
Fyrir tveimur dögum síðan losnaði eitt skrautdúlleríið á töskunni minni þannig að það hékk laust. Ég elskaði töskuna mína afar heitt, enda fullkomin að öllu leyti og sem sniðin að mér og mínum daglega farangri. Þar sem að taskan var aðeins eins mánaðar og tuttugu daga gömul (sem sagt enn í einhverri neytendaábyrgð sem er að ég held tveir mánuðir) þá lagði ég leið mína niður á Strikið og sagði búðarstúlkunum frá þessum hörmulegum fréttum. Bjóst ég við að mér yrði boðin viðgerð fyrir töskuna svona í mesta lagi, en neibb, stelpan sem afgreiddi mig reyndi ekki einu sinni að rengja frásögn mína, fór og leitaði að samskonar tösku án árangurs og spurði hvort ég vildi ekki fá töskuna endurgreidda. Ha, uh, jú, ekki get ég verið með tösku með lausu dúlleríi! Þannig að hún tók töskuna mína ástkæru og ég fékk peningana mína til baka. En ekki gat ég splæst í nýrri tösku þarna á staðnum, enda meðalverðið á töskum í þessari búð svona u.þ.b. 20.000 íslenskar krónur (nema taskan mín, sem var sú eina ódýra sem hægt var að fá, en samt var hún nógu skratti dýr) þannig að ég ákvað að deyja ekki alveg ráðalaus og lagði leið mína í næstu verslunarmiðstöð, fann sömu búð og fann líka nákvæmlega eins tösku og mín gamla var og keypti hana að sjálfsögðu! Ég er svo klár. Það getur nefnilega ekki hvaða taska sem er borið líf mitt með góðu móti, en þetta eru kröfurnar sem ég geri:
Taskan verður að:
- vera lítil og létt og nett, þ.e. hún má ekki vera stór um sig.
- vera flott og gelluleg.
- geta innihaldið eftirfarandi allt á sama tíma:
# þrjár orðabækur (íslenska/danska, danska/íslenska og danska/danska)
# þunna möppu fulla af dönskunámsefni
# stóra stílabók
# stóra og þykka skipulagningardagbók
# pennaveski með allskonar drasli í
# peningaveski, lykla, gemsa
# spegil
# málningardrasl (oft sem maður fer óvænt í bæinn eftir skóla)
# nesti fyrir heilan dag
# vinnufatnað
En nóg um töskur. Á leiðinni heim úr töskuleiðangrinum var ég reyndar svo utan við mig að ég gleymdi að fara út á lestarstoppistöðinni minni og fattaði það ekki fyrr en tveimur stöðvum seinna! Vúps...
Annars er þetta nú orðin frekar löng færsla. Og ég þarf að skella mér í rúmið, enda klukkan að verða tíu og ég nenni ekki með nokkru móti að kíkja út. Ég var nefnilega dregin út algjörlega gegn vilja mínum í gærkvöldi og ég þurfti svo að vakna klukkan fimm í morgun og mæta í vinnu klukkan sjö... mæli ekki með því. Oh, ég er svo þreytt.
Já, núna er ég hætt og samt bara búin með einn þriðja af því sem ég ætlaði að deila með ykkur.Hafið það gott, ástarpungarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna sem á engin föt en geggjaða tösku.
laugardagur, júní 23, 2007
Já en veskan mín! Ónýt!
...sagði
Anna Bj.
-
laugardagur, júní 23, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli