Hejsan!
Ég ætla að byrja þessa færslu á að óska öllum nýstúdentum úr MA hjartanlega til hamingju með daginn :o) Og gleðilegan þjóðhátíðardag til ykkar hinna!
Sjálf held ég að ég bregði ekki út af vananum frekar en fyrri daginn og geri ekkert í dag. Eða "ekkert", ég ætla nú að laga til og þvo þvott og fara í göngutúr og svona. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er gaman að þvo þvott eftir að ég splæsti í þessari fínu fínu þvottagrind, það er endalaust mikið pláss á henni.
Já, í dag er sunnudagur og ég er tiltölulega nýskriðin á fætur (klukkan er hálfþrjú). Þessi helgi var hin allra fínasta. Á föstudagskvöldið fór ég á fyrsta nærliggjandi bar með bekkjarfélögum mínum úr dönskuskólanum þar sem við héldum upp á það að komast áfram á þrep sjö með viðeigandi hætti. Gærkvöldið var vægast sagt tryllt, en þar kom við sögu gífurlega háir hælar (ekki ég), billjarðkjuðar sem var dúndrað í ljós (ekki ég) og fólk sem öskraði sig hást í æsingnum í fótboltaspili (ókei það var ég). Eins rámar mig eitthvað í valhopp eftir öllu Strikinu endilöngu (það átti víst að vera júgóslavískur þjóðdans), móðgandi dyraverði sem horfðu með hneykslissvip á ökuskírteinið mitt og sögðu með þjósti "Hvad er DET for noget???", trylltan dans, langar biðraðir á klósettin, McDonald's borgara, dúfur og stóla sem voru klístraði fastir við gólfið. Eins fæ ég fimm stjörnur fyrir atriðið þar sem ég skaut mér fimlega með allskonar klókindum fram hjá risastórum dyraverði og stalst á klósettið á karíókíbar, án þess að borga mig inn... Önnur atriði eru ekki birtingarhæf á svona víðlesnum vef. Hósthóst.
Já gott fólk, ég er komin áfram á þrep sjö í dönskuskólanum, takk fyrir pent! Og ekki nóg með það, heldur sagði kennarinn minn að það væri nú eiginlega lygilegt hvað það væri bara rétt rétt svo hægt að greina pínuponsu hreim hjá mér í dönskunni, og það væri nú varla til þess að tala um! Síðan þá er ég búin að vera alblaðrandi á dönsku við bókstaflega alla sem ég hitti á götum úti, ég er ekkert smá fegin að vera búin að losa mig við íslensku mállýskuna (hér í Danmörku er danskan sem Íslendingar tala kölluð mállýska).
En æh, nú held ég að verði að rölta út í búð og kaupa eitthvað að spise...
Kristinn, ég þarf að hitta þig á msn við tækifæri og fá Danmerkur-myndir af okkur frá þér.
Og fyrir þá sem áhuga hafa á danskri tónlist, þá er þetta það sem ég er gjörsamlega húkt á í augnablikinu. Nei, þetta er ekki Kim Larsen, heldur eru þetta gaurar sem heita Nik & Jay og eru það heitasta hér í Danmörku. Nú eru þeir á leiðinni til Bandaríkjanna að reyna að gera góða hluti þar, sjáum til hvernig það fer, en jadúddamía hvað mér finnst þeir miklir æðibitar. Athugið að þetta eru myndbönd.
I Love Ya: http://www.youtube.com/watch?v=EemyMIivKpA
Et sidste kys: http://www.youtube.com/watch?v=-X_q0vPTwIo
Og nú er klukkan orðin hálfsex, svona er það að vera að gera marga hluti í einu! En núna verð ég að drífa mig út í búð svona fyrst að það rignir ekki í augnablikinu...
Hafið það gott älsklingarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna Haraldsdothir
sunnudagur, júní 17, 2007
Du er sindssyg man!!!
...sagði
Anna Bj.
-
sunnudagur, júní 17, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli