miðvikudagur, desember 31, 2008

Annáll 2008

Jæja, þá er árið brátt á enda og því kominn tími á hinn árlega annál. Einhvern veginn finnst mér að ég hafi frekar fátt að segja, annað en Peter Peter Peter, en við skulum sjá til hvort ég geti ekki grafið eitthvað meira upp.

# Í janúar 2008 vorum við Peter farin að tala um, að það væri nú kannski ekki svo galið ef ég myndi pakka niður í ferðatösku og hálfpartinn flytja til hans. Okkur fannst fjarlægðin á milli Vanlöse og Kastrup alveg óhugnaleg, og ákváðum við að hafa kerfið þannig að ég væri slatta af dögum hjá honum og nokkra hjá mér, slatta af dögum hjá honum og nokkra hjá mér og svo framvegis. Í lok mánaðarins kastaði ég svo drasli í tösku og arkaði heim til hans í litlu sætu 40 fermetra íbúðina hans, þar sem við vorum fram á sumar.

# Í febrúar kom Ingi minn svo í stutta heimsókn, í hálfan sólarhring eða svo, og var svo veðurtepptur í 26 klukkutíma á Kastrup-flugvelli. Fátt annað fréttnæmt gerðist þann mánuð, ég var bara að vinna og rólegheit.

# Í mars gerðist ekkert markvert, fór samt oft út að borða með Peter mínum og allskonar dúllerí.

# Í apríl keyptum við Peter okkur þvottavél í litlu litlu íbúðina okkar. Sú þvottavél hefur verið mikið notuð alla tíð síðan, enda vitum við ekkert leiðinlegra en þvottakjallara... Eitthvað var farið á skemmtistaði borgarinnar þennan mánuð.

# Í maí fórum við Peter í helgarferð til Gautaborgar. Sú ferð var algjör snilld, og erum við ennþá að vitna í hana, því mikið af einkahúmor varð til í þeirri ferð. Við gistum á uppáhaldshótelinu mínu, Hotel Gothia Towers þar sem ég var að vinna sumarið 2006.

# Í byrjun júní var frekar heitt og ómögulegt að sofa. Eftir miðjan júní varð svo skítkalt aftur. Hann Ingi minn kom aftur í heimsókn, vúhú! Við sóttum líka um nýja íbúð í þessum mánuði. Peter var búinn að búa í 2 ár í litlu íbúðinni og myndi því lenda ofarlega á forgangslista. Það voru allavega ekki neinar ýkjur að við myndum lenda ofarlega á forgangslista, því 3 dögum eftir að við fengum umsóknina okkar staðfesta, þá fengum við tilboð um íbúð. Allajafna er um 2 ára biðlisti eftir íbúðarstærðinni sem við sóttum um (sóttum um 3 herbergja, ef maður sækir um 2 herbergja íbúð er 7 ára biðlisti! Peter þurfti að bíða í 2 ár eftir litlu íbúðinni, enda er biðlistinn ca. 2 ár þar). Til allrar lukku voru nefnilega tvö pör búin að skoða íbúðina á undan okkur og bæði sagt nei (annað parið því þeim fannst svalirnar ekki nógu stórar og hitt parið því þeim fannst eldhúsinnréttingin ekki nógu nýleg). Svo við nutum góðs af og skelltum okkur á íbúðina, enda stór (86 fermetrar), björt og rúmgóð. Í lok júní fékk ég að vita að mig vantaði einn þýskuáfanga og háskólaumsóknirnar mínar því ógildar. Ég tók þó til þess ráðs að hafa samband við Versló í snarhasti, smjaðraði pínu og sagði frá glæsilegri tíu-sögu minni í þýsku, og sjá, ég fékk að fljóta með í fjarnámið, þrátt fyrir að vera nokkrum vikum á eftir hinum nemendunum.

# Við fengum nýju íbúðina afhenta 1. júlí. Við höfðum hálfan mánuð til þess að tæma gömlu íbúðina okkar, en það gekk nú greiðlega þar sem að nýja íbúðin var einungis 300 metrum frá þeirri gömlu, hentugt! Svo máluðum við og græjuðum og gerðum þetta voða fínt og flott. Ég sagði einnig upp herberginu mínu í Vanlöse og tæmdi það. Ótrúlegt hvað maður sankar alltaf að sér mikið af drasli. Ég átti afmæli 29. júlí og varð hundgömul, sem sagt 21 árs. Í lok júlí fékk ég líka svar um að ég væri komin inn í Humanistisk informatik í Álaborgarháskóla í Kaupmannahöfn, vúhú!

# Í ágúst keyptum við Peter okkur viftu til þess að geta sofið í sumarhitanum. Reyndar var þetta sumar frekar kalt, en það var samt alltaf alveg ægilega heitt á nóttunni svo ekki var hægt að sofa. Þessi vifta er eitt af því besta sem við höfum fjárfest í, með fjarstýringu og tímastilli og svefnstillingum (blæs smá og stoppar, og blæs smá og stoppar) og skiptandi stillingum og hraðastillingum og hvað veit ég. Í byrjun ágúst skelltum við okkur svo til Íslands og gerðum okkur margt til dundurs þar, fórum í hvalaskoðum og baðlónið og út á vatn að veiða og allskonar sightseeing um sveitina. Svo lentum við í 11 tíma seinkun á flugi á Akureyrarflugvelli og rétt svo misstum af fluginu okkar til Portúgal. Við keyptum samt bara nýja (rándýra) miða og skelltum okkur til Algarve í Portúgal, enda búin að leigja hús þar ásamt vinum okkar. Í Portúgal var slappað af í einkasundlauginni, farið í risastóran sundlaugargarð og í sædýragarð, á ströndina og allskonar.

# Skólinn byrjaði í september. Það gekk nú ljómandi vel allt saman. Ég minnkaði alllaglega við mig vinnu, og fór að mæta annan hvern laugardag, 10 tíma í senn.

# Í október var farið í vísindaferð með bekknum. Við fórum til fjandans, nánar tiltekið til Haderslev á Suður-Jótlandi. Ægilega löng rútuferð. En þetta var samt mjög gaman allt saman. Ég tók einnig vikulangt heimapróf í þessum mánuði, það gekk nú ljómandi vel. Ég fór einnig partí með vinnufélögunum, fórum í keilu og keyptum svo óheyrilegt magn af búsi og drukkum duglega heima hjá einum vinnufélaganum. Gaman gaman. Mig minnir líka að það hafi verið í þessum mánuði sem ég fór í stóra Nettó-veislu, þar sem allir Nettó-starfsmenn Kaupmannahafnar voru samankomnir. Það var stuð, matur og ókeypis drykkir, en það allra besta var að Nik & Jay komu að spila, og spiluðu í ca. hálftíma, vúhú! Við Peter áttum svo ársafmæli þann 6. október.

# Nóvember= hópverkefni. Fyrst upptökur á stuttmynd og svo löng ritgerð. Átti mér þar af leiðandi ekkert líf í desember, fór reyndar einu sinni á Lauritz með henni Hildi minni.

# Desember= átti mér heldur ekkert líf, allavega ekki fyrr en þann 17. desember, þegar við skiluðum loksins ritgerðinni okkar. Það var mikill gleðidagur! Við Peter fórum svo út að fagna með Leu úr bekknum mínum og Martin kærasta hennar. 3. desember varð Peter einnig 25 ára, og við fórum að borða í tilefni þess. 6. desember vorum við svo með afmælisveislu þar sem fjölskyldu Peters var boðið í kökur og pitsu. 21. desember flaug ég svo til Íslands í jólafrí, borðaði yfir mig af smákökum og fór í partí með félögunum á Akureyri svo fátt eitt sé nefnt.

Já, ágætis ár að baki.

Hafið það gott älsklingarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna panna.

Engin ummæli: