mánudagur, desember 22, 2008

Heima

Jæja, nú er ég komin heim í heiðardalinn. Er nú þegar búin að borða óhóflega af smákökum, en sem betur fer er til þrekhjól hér á bæ, svo ég býst við að eyða ágætum tíma jólanna þar. Læknirinn minn er nefnilega búinn að skipa mér að fara í aðhald, því ég er greinilega í miklum áhættuhópi offitusjúklinga með allar mínar eggjastokkablöðrur, og verð ég því með öll mín 58 kíló að hætta allri óhollustu og kaupa mér kort í ræktina. Dæs. Það verður allavega í kjólinn fyrir jólin á næsta ári, nema að ég verði hreinlega horfin...

Ferðalagið í gær gekk ljómandi vel. Vélinni seinkaði bara um 25 mínútur, en aftur á móti var svo mikill mótvindur á leiðinni heim að þar bættust við 20 mínútur. Ég hitti svo færeyskan vinnufélaga minn í flugstöðinni í Kastrup og hann sagði farir sínar ekki sléttar, hann var á leiðinni til Færeyja í jólafrí en það var svo mikið rok í Færeyjum að fluginu var allavega seinkað um 5 tíma. Hann tók því samt rólega og fékk sér bjór.

Pabbi og Einar stóribrósi komu svo að sækja mig, enda er ég alltof illa brennd af seinkuðu flugi til þess að ég taki séns á að fljúga ef hægt er að keyra.

Ég verð nú samt að segja eins og er að ég sakna hans Peters mín alveg ógurlega. Við höfum ekki verið eina einustu nótt í burtu frá hvort öðru síðan við fengum nýju íbúðina okkar í júlí og því alveg ómögulegt að sofa einn. Peter gat til dæmis ekki hugsað sér að sofa einn í rúminu okkar í nótt svo hann var vakandi fram á rauðamorgun og bjó svo um sig á sófanum og býst við að sofa þar þar til ég kem aftur...

Og svo þarf maður náttúrulega að venja sig á íslenskuna aftur. Í bílnum á leiðinni heim í gær sat ég í aftursætinu á meðan Einar og pabbi sátu fram í. Ég dottaði eitthvað og vaknaði svo aftur og þá átti eftirfarandi sér stað:
Anna: Hvor er vi henne?
Einar og pabbi: Ha??
Anna (ennþá hærra): Hvor er vi henne!!!
Einar: Uhhh, Holtavörðuheiði?

En jæja, best að fara og dúlla pakka (fast orðasamband hér á bæ: dúlla pakka=pakka inn og skreyta með allskonar dúlleríi) því ég þarf að koma pakkanum hennar Lilju minnar í póst á morgun... er löngu búin að kaupa gjöfina, en þar sem ég er ekki alltaf neitt rosalega framtakssöm, þá fær Lilja pakkann sennilega á milli jóla og nýárs... sorrí Lilja mín ef þú lest þetta!

En allavega, hafið það gott ástarpungarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna Björk

Engin ummæli: