sunnudagur, janúar 11, 2009

Ófarir

Í dag er ég með dásamlega fallegar hendur.

Ástæða númer eitt: Þetta byrjaði allt saman í síðustu viku þegar ég fór að finna fyrir miklum handþurrki, sem ágerðist með dögunum og enginn handáburður vann á. Í gær skellti ég mér svo í vinnuna en þá versnaði þurrkurinn um helming, hendurnar á mér urðu hrúðurlagðar og um hádegi voru hendurnar á mér orðnar svo sprungnar og aumar og með svo miklum bjúg að ég gat varla setið á kassanum lengur. Þá splæsti Nettó í handáburð handa mér (datt ekki í hug að þetta yrði svona slæmt svo ég tók ekki slíkt með sjálf) og þá varð vinnan aftur þolanleg. Ofnæmi, sagði ein sem er að vinna með mér og er að læra hjúkrun. Frostexem, segi ég. Hef oft fengið svoleiðis á litla putta vinstri handar, en aldrei á allar hendurnar! Sjitt, þetta er vont, en þó skárra í dag en í gær, þótt það virðist sífellt bætast á krókódílahúðina. Kynþokkafullt.

Ástæða númer tvö: Áramótaheitið mitt 2009 ber yfirskriftina "Tútta tvöþúsundogníu". Sem felur meðal annars í sér langar og fagurlega lakkaðar neglur ásamt fleiru. Nema hvað að fröken Anna hafði gleymt því að hún vinnur ekki neitt voðalega naglavænlega vinnu og braut 4 neglur upp í kviku á fyrsta klukkutímanum þegar hún sveiflaði 84 stykkjum af 15 kílóa mjólkurkössunum fram og aftur og aftur og fram, þrátt fyrir að vera með hanska. Þær neglur sem ekki brotnuðu upp í kviku við mjólkurtilþrifin klofnuðu þegar ég sat á kassanum seinna um daginn.

Ástæða númer þrjú: Í dag skellti ég mér á bókasafnið hérna niðri í Kastrup og náði mér í fullt af bókum um röksemdafærslu og pólitísk samskipti sem undirbúningsefni fyrir stórt próf sem ég er að fara í á fimmtudaginn. Ég nældi mér í 7 hnausþykkar bækur og skellti í ferðatöskuna mína (já, ég fór með ferðatösku því frostexemahendurnar á mér höndla ekki að halda á neinu þungu, slíkur er sársaukinn) og ætlaði svo að æða heim, þegar ég gekk framhjá hillu þar sem stóð skrifað með stórum stöfum "Áramótaheit". Ég hægði ferðina og kíkti á hilluna og sá þá að þetta voru allskonar blöð og dvd-diskar sem fjalla um hreyfingu af allskonar tagi. Ég hugsaði til áramótaheitisins góða og greip með mér einn eróbikk-disk í anda Ágústu Johnson og strunsaði svo heim. Þegar heim var komið dró ég fyrir gluggana og skellti disknum í leikjatölvuna (og átti svo í löngum rökræðum við fjarstýringuna, Peter ekki heima og ég kann ekki á svona tæknidót en tókst þó með herkjum að koma disknum í gang) og fann mér viðeigandi íþróttaföt. Svo byrjaði hasarinn. Hér á bæ er nefnilega stór og rúmgóð stofa með fullt af gólfplássi og hentar því vel til eróbikks. Það voru þó ekki liðnar nema tvær mínútur af upphituninni þegar mér tókst að dúndra vísifingri vinstri handar í loftljósið (sem brotnaði guðs blessunarlega ekki!) og skóf skinnið að hálfum puttanum. Svo byrjaði blóðið að fossa úr fingrinum. Ég, full af eldmóði vegna áramótaheitisins, hljóp fram í eldhús og náði í plástur og hélt svo æfingunum áfram. Eftir hálftíma voru æfingar dagsins búnar og ég búin að skipta tvisvar um plástur. Það fossblæddi svo í hálftíma í viðbót. Svo núna er puttinn á mér hálfskinnlaus og ljótur, í stíl við útbrotin á handarbökunum og brotnu neglurnar.

Sumum er ekki ætlað að vera fallegir...

Hafið það gott älsklingarnir mínir! Bestu kveðjur, Anna hin handfagra.

Engin ummæli: