Jæja, nú er árið brátt liðið í aldanna skaut og því komið að hinum árlega annáli, sem verður skammarlega stuttur að þessu sinni vegna atburðarleysis á árinu.
Í janúar 2007 flutti ég til Danmerkur, sem var nokkuð rökrétt framhald eftir búsetu mína í Svíþjóð og í Hollandi, enda var ég komin með alveg nóg af flutningum og farin að huga að varanlegri dvalarstað.
Ég man harla fátt frá fyrstu níu mánuðum ársins, enda var ég í fullri vinnu (fyrstu vikurnar í þvottahúsi og restina í hinni frábæru verslunarkeðju Netto) og þar að auki á all svakalegu hraðdönskunámskeiði sem tók allan minn frítíma og kvöldstundir. Sumarið fór þar af leiðandi algjörlega framhjá mér, og það eina sem ég afrekaði var að fara einu sinni í sólbað úti í garði - með dönskubækurnar á nefinu.
En svo leið loksins að lokum námsins, og viku áður en ég kláraði var skólanum mínum lokað vegna grægði Kaupmannahafnarkommúnu, sem mér er meinilla við alla tíð síðan.
Í byrjun haustsins var ég spottuð á Myspace og kynntist þar með Hildi Evu. Við létum ekki okkar eftir liggja og stunduðum skemmtistaði bæjarins grimmt (eða eiginlega bara einn stað, Lauritz Betjent er og verður okkar staður!) og gerðum allskonar skandala. Einnig var ákveðið að fara í eitt ákveðið missjón, og ekki leið langur tími áður en missjón var completed. Svo gerðum við okkur að sjálfsögðu ýmislegt annað til dundurs, kaffhús, brunch, kynlífssýningar og verslunartúrar urðu daglegt brauð, en svo kom allt í einu jólafrí eins og þruma úr heiðskíru lofti og haldið var heim til Íslands í þriggja vikna afslöppun og átveislu.
Þannig var nú árið 2007, viðburðarlítið með eindæmum vegna annríkis en fínasta ár engu að síður. Stefnir þó allt í frábært ár 2008 (þótt fátt toppi 2006) og er margt á dagskránni sem og í plönun.
Áramótaheit 2008 eru með svipuðu sniði og áður.
1. Borða minna.
2. Hreyfa mig meira.
3. Hætta að eyða pening í óþarfa, samanber haldapoka og bókasafnssektir. Undantekningar eru föt, skór og make-up, bíóferðir, út að borða og djamm.
4. Vera gella (sem sagt fara reglulega í klippingu og litun, hugsa um neglurnar, hugsa um fæturna, hugsa um húðina).
5. Halda strangt heimilsbókhald og læra að skilja að gerfiþarfir (fyrir utan föt, skó og make-up, bíóferðir, út að borða og djamm) frá frumþörfum.
Þar með er það upptalið.
Ég færi öllum lesendum mínum (sá hópur spannar bæði vini, fjölskyldu, kunningja, fólk sem kannast við mig, ókunnuga og svo framvegis) bestu þakkir fyrir samskiptin og lesturinn á árinu sem er að líða og vona að nýja árið færi ykkur hamingju og gleði.
Við hittumst/lesumst heil á nýju ári! Ástarkveðjur, Anna Björk
mánudagur, desember 31, 2007
Annáll 2007
...sagði
Anna Bj.
-
mánudagur, desember 31, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli