sunnudagur, desember 09, 2007

Hov hov hov!

Fínasta helgi að baki. Var reyndar í vinnunni á föstudag og laugardag, en svo tók gamanið við þegar ég skellti mér beint eftir vinnu á laugardaginn út að borða með Hildi og Lindu. Þaðan var svo haldið beint heim til mín (með smá stoppi á bensínstöð til þess að hlaða búsbirgðir) og við tók djammundibúningur, svona eins og vera ber. Ég er til allrar guðs lukku loksins búin að splæsa í pumpu (og stærri vindsæng sem hylur allt herbergisgólfið) svo ekki þurfti að taka Þingeyinginn á þetta í þetta skiptið (það á nú samt að vera ansi mikið loft í þeim, en sorrí elskurnar, smágerð manneskja - smágerð lungu svo það dæmi var bara ekkert að ganga upp!). Hildur blöndunarmeistari stóð sig vel með Razzinn, nema ekki tókst að hafa stjórn á Lindu sem sá um sína blöndun sjálf og datt svo á bólakaf ofan í Hot'n'Sweet pelann.
#
Ég stóð mig eins og hetja í poppinu og stóð og starði á örbylgjuofninn þær þrjár mínútur sem það tekur poppið að poppast og hreyfði mig ekki hænufet, illa brennd af fyrri reynslu sem kveður á um að maður eigi ekki að skjótast inní herbergi og fá sér meiri drykk þegar eitthvað er í örbylgjunni, því þá geta þrjár mínútur fljótt breyst yfir í átta mínútur. Hóst.
#
Við náðum seinustu lest í bæinn, sumar allnokkuð hressar, og gekk það klakklaust fyrir sig. Hávaðasamt, en klakklaust. Ég rauf að sjálfsögðu ekki hefðina og skaust á bakvið styttu við eina ónefnda byggingu til þess að pissa (best að hafa hana bara ónefnda hér, hver veit nema danskir lögregluþjónar og allskonar fólk séu meðal fastalesenda!) því blaðran heldur ekkert of miklu í einu. Eða jú, en ekki við svona þamb. Svo var að sjálfsögðu skundað beina leið inn á Lauritz, eins og svo oft áður, þar sem tekið var allduglega á því á dansgólfinu. Sumir voru þó búnir að drekka aðeins of mikið (og það var ekki ég í þetta skiptið!) og fannst ekki gaman að lenda í slysum þar sem hælaháum skóm var trampað ofan á stórutær. En ég, með ráð undir rifi hverju, reddaði málum með því að blikka einn gæja og fá hann til þess að lána mér drykkjardunk mikinn sem hann hafði í fórum sínum, fullan af vatni og ísmolum. Gerði mér svo lítið fyrir og tróð löppinni á slösuðu manneskjunni (Hildi) ofan í dunkinn og skeitti engu þótt viðkomandi væri ekki einu sinni kominn úr sokknum.
#
Seint og um síðir (hálffimm) var kominn tími til þess að halda heim á leið. En það er náttúrulega ekki hægt að fara heim án þess að vera búinn að kíkja aðeins í 7-eleven, sem við og gerðum. Þar lentu sumir (ég...) í afar óheppilegum atvikum, já, það var næstum því pínlegra en þegar við Hildur kysstumst á Lauritz um seinustu helgi! Þar var þó ekki um að ræða heita tungukossa, heldur vorum við í sakleysi okkar að dansa flottan dans sem krafðist þess að gogga hausnum fram, og í einu gogginu bara splass! Beint á munninn. Það þótti okkur afar vandræðalegt og hlógum vel og lengi eins og hálfvitar að þeim skandal. En eins og áður segir, þá var þetta næstum því verra. Hér kemur sagan.
#

Við stúlkurnar fórum í 7-eleven til þess að kaupa pitsusneiðar og möffins og annan óþarfa. Ég stóð fyrir framan búðarborðið og horfði græðgislega á kræsingarnar og pældi í því hvað mig langaði til þess að fá mér. Seildist svo ofan í brjóstahaldarann til þess að ná í peninga (sem geymast í púðagatinu því maður getur náttúrulega ekki verið með veski á skemmtistað þegar maður þarf að nota báðar hendur til þess að klípa í rassa) og eitthvað voru peningarnir á erfiðum stað í gatinu og þurfti því mikil tilþrif til þess að ná þeim út. Eitthvað hef ég verið lítið pen við þessar aðfarir mínir, því ekki vildi betur til en svo að mér tókst að draga bæði hálsmálið á bolnum og brjóstahaldarann niður svo við sæta afgreiðslumanninum blasti bert hold. Og mín náttúrulega ekkert að fatta.
#

Afgreiðslugaur (brosandi)- Hej smukke!
Anna (hress í daðurgírnum)- Hej!
Gaur- Hvað segirðu gott?
Anna- Bara fínt! Æh ég veit ekki hvað mig langar í.
Gaur- Þetta var allavega flott innkoma hjá þér ;)
Anna- Ha? Já ég geymi sko alltaf peningana í brjóstahaldaranum (enn ekkert að fatta).
Gaur (skælbrosandi)- Ja, det må man nok sige, já það er nú alveg greinilegt!
Anna (fattar)- Ahhh hahaha, já, híhí. Huhumm. Uhh, já, heyrðu, ég vildi gjarnan biðja um eina svona súkkulaðimöffins.
Gaur (enn skælbrosandi)- Já, gjörðu svo vel. Mér finnst nú samt að þú ættir að renna pínu niður...
Anna (byrjar að renna niður)- Af hverju? (Fattar) Jááá, hehe, en maður sér ekkert hvort sem er, ég er nefnilega í bol líka, híhí.
Gaur- Flott samt ;) En já, þetta verða 15 krónur. Má ég ná í peningana sjálfur?
Anna- Híhí ég er búin að ná í þá sjálf, sorrí ;)
Gaur- Nei þú setur þá bara aftur ofaní :)
Anna- Híhíhí.
Gaur- En þú þarft ekki að borga ef ég fæ koss (setur stút á varirnar).
Anna - Viltu fá koss? ;)
Gaur (ekki jafn brosandi)- Æh ég er með svona trúlofanarhring (sýnir mér gullhringinn).
Anna- Núú, híhí, nú þá færðu bara peningana ;)

#
Þannig fór nú um sjóferð þá með mig og herra Seveneleven!
Og svo var farið heim að sofa.
Hafið það gott börnin góð! Góða nótt, Anna sem dansar í gluggakistum.

Kræst, er maður sætur eða hvað?

Engin ummæli: