laugardagur, mars 22, 2008

Botninn er suður í Borgarfirði

Ný færsla, ég endurtek, NÝ FÆRSLA!!! Já, ég veit ekki alveg hvað hefur hlaupið í mig núna, kannski af því að karlinn ákvað að stinga af í fimm klukkutíma eða svo og ég veit ekkert hvað ég á af mér að gera. Ég er líka inneignarlaus og því úr öllu sambandi við umheiminn, og ég sem ætlaði að hringja í nokkra vel valda aðila og fá djammslúðursögur gærkvöldsins beint í æð, en nei, það verður að bíða betri tíma.

Já, margt að gerast og margt búið að gerast. Undanfarinn mánuð er ég búin að fara í 517 matarboð og 648 sinnum út að borða. Dýragarður, sædýrasafn, sleep-over sinnum 27, djamm, vorhreingerning, versla, þvo þvott, baka, vinna, ólsen-ólsen og allskonar bras voru líka á dagskránni núna seinustu vikur. Alltaf nóg að gera :)

Núna er ég í páskafríi og ó þú ljúfa líf! Það var að sjálfsögðu villt páskadjamm á fimmtudaginn (fyrradag) þar sem sumir (já eða hreinlega allir) fengu sér allhressilega í báðar tærnar og fór gærdagurinn því að langmestu leiti í þynnku hjá öllum sem að djamminu komu. En ég reif mig þó upp á rassgatinu og lagaði til og bakaði köku og bauð svo Hildi Evu til mín í X-factor gláp, júhú :) Þetta er orðið ægilega spennandi og ég veit hreinlega ekki hvað ég geri ef Martin vinnur þetta ekki, sennilega leggst ég í þunglyndi og mun aldrei sjá sólarglætu í lífi mínu aftur. Já, hér koma nokkrir linkar á hann, ég mæli með að þið hækkið allduglega í græjunum! (Og hafið það í huga að hann er bara 15 ára!!!).

- Hérna syngur hann Queen-smellinn Somebody to love. Þessi frammistaða hans hefur vakið heimsathygli og ekki að ástæðulausu! http://www.youtube.com/watch?v=qrnfMyOIJ2c

- Hérna syngur hann Kiss From a Rose http://www.youtube.com/watch?v=C84WFzBMugQ

- Og þetta söng hann í gærkvöldi, What Goes Around með Justin Timberlake, mammamía! http://www.youtube.com/watch?v=9QKhff0yge8&feature=related

En jæja, ég nenni ekki að blogga meira, ég þarf nefnilega að skella mér útí búð í snjókomunni. Minn ágæti kærasti var nefnilega rétt í þessu að hringja og biðja mig um að fara í SuperBrugsen og kaupa meira skiiir og múslí... Ég hrærði nefnilega skyr handa okkur núna í vikunni og vakti það mikla lukku.

Anna: Og núna er ég búin að hræra þetta, þetta er svona eiginlega íslensk jógúrt, og værsgo.
Peter: Já þetta lítur vel út.
Anna: Já, og núna gerirðu bara eins og ég og setur mjólk út á.
Peter: Nei ég ætla ekki að fá mér mjólk. MMMMM þetta bragðast vel elskan!
Anna: Já, en hérna er mjólkin, maður setur hana alltaf út á líka.
Peter: Nei þetta er geggjað svona. Hey, eigum við nokkuð múslí?
Anna: MÚSLÍ???
Peter: Já, af því að það eru 11 grömm af próteini í hverjum 100 grömmum af þessari jógúrt og með smá múslíi væri þetta fullkomið fyrir mig sem matur fyrir ræktina!
Anna: Jamen min kære skat, maður borðar þetta ekki með múslíi!
Peter: Jújú, þetta er geggjað gott. Já nú veit ég hvað við eigum að setja á innkaupalistann: SKUJR!!!
Anna: BWAHAHAHAHA þetta heitir ekki skujr!!!
Peter: Jú víst, það stóð utan á dollunni!
Anna: Haha, já en á íslensku segir maður "skir" því y segir i en ekki uj eins og á dönsku.
Peter: Núúú, skjííír!
Anna: Nei, skir!
Peter: Skiiir!

Þannig að núna ætla ég að strunsa útí búð og kaupa skiiir og múslí.

Hagið ykkur vel! Bestu kveðjur, Anna Lauritz

Engin ummæli: