... oh what a beautiful day.
Ég vaknaði klukkan 05:13 í morgun og gat ekki sofið meir vegna of mikils svefns núna um helgina. En þar sem ég og rúmið mitt erum bestu vinir lá ég samt í mestu makindum aðeins lengur og fór ekki fram úr fyrr en klukkan 06:20, tíu mínútum á eftir áætlun. Þegar ég steig niður á gólfið sá ég alveg ógeðslega stóra kónguló hlaupa eftir gólfinu, oj oj oj! Og ég sem hélt að herbergið mitt væri kóngulóarfrítt! Reyndar verður að segjast eins og er að þetta var engin venjuleg kónguló með temmilegan búk og tíu cm langar lappir, bara ef svo væri. Nei, þetta var voðalega tarantúlulegt með feitar lappir og feitan og kjötmikinn búk (samt aðeins minna en tarantúla sko, sem betur fer!). Hjartað missti úr nokkur slög og ég horfði í örvæntingu minni í kringum mig í leit að einhverju til þess að drepa helvítið. Ég tímdi að sjálfsögðu ekki skónum mínum frekar en fyrri daginn, en rakst á glas með kanelsykri uppi í gluggakistu. Ég hellti kanelsykrinum í ruslið og spreyjaði svo hárlakki í glasið svo það var u.þ.b. tveggja centímetra djúpur hárlakkspollur í því, dró djúpt að mér andann og hvolfdi glasinu yfir ógeðið. Það tók kóngulóarskrattann ekki nema mínútu að drepast en mig tíu mínútur að ná andanum. Og þá voru öll tímaplön og morgunrútínan fokin út í veður vind svo ég hitaði mér hafragraut í stresskasti og borðaði í snarhasti.
Eftir að hafa sporðrennt grautnum (án kanelsykursins sem lá náðsamlegast í ruslinu) leit ég á klukkuna og fannst ég hafa nokkuð góðan tíma þrátt fyrir uppákomu morgunins. Svo leit ég í spegilinn og sá bara klessu. Sjitt, linsurnar! Svo ég greip linsuboxið og skellti linsunum í mig. Það fór þó ekki betur en svo hægri linsan datt á gólfið og fannst ekki aftur þrátt fyrir dágóða leit, svo ég þurfti að grafa ansi djúpt inn í alltoffulla snyrtivöruskápinn minn til þess að finna annað par. Sem ég fann og skellti í. En svo var vinstri linsan voða mikið að stríða mér og ég alveg að falla á tíma svo ég skellti bara nýrri í það auga líka. Og þá var klukkan 07:00.
Nei öss, ég hef alveg böns af tíma, best að skella sér fram í eldhús og "smyrja nesti" (sem sagt skella fjórum sneiðum af osti í tilbúnum sneiðum ofan á fjórar þurrar brauðsneiðar og fylla vatnsflöskuna) og fara svo inn í herbergi og snurfusa sig smá. Um leið og ég gekk aftur inn í herbergið mitt klukkan 07:07 hringdi síminn minn.
# Yfirmaðurinn (hress eins og alltaf): Góðan daginn Anna!
# Anna (voða hress á móti): Nei góðan daginn!
# Yfirmaðurinn: Hvar ertu?
# Anna: Ég? Ég er nú bara heima sko...
# Yfirmaðurinn (glettinn): Núú, og hafðirðu ekkert hugsað þér að mæta í vinnuna eða?
# Anna: Já en Tommy minn, ég á ekki að mæta fyrr en klukkan átta svo það er algjör óþarfi að örvænta.
# Yfirmaðurinn (hissa): ÁTTA? Nei, það stendur á vaktaplaninu að þú eigir að mæta klukkan sjö!
# Anna (voða róleg): Neinei, ég dobbúltékkaði þetta á föstudaginn. Nema náttúrulega að þú hafir breytt tímunum mínum um helgina þegar ég var ekki í vinnunni...
# Yfirmaðurinn: Bíddu, ég ætla að hlaupa og tékka á þessu. (Kemur eftir smástund). Nooh, ég leit óvart á síðustu viku í staðinn fyrir þessa... Var ég nokkuð að vekja þig?
# Anna: Neinei, ég vaknaði fyrir löngu síðan og er búin að drepa kónguló og hvaðeina síðan þá. En nú hef ég ekki tíma til þess að tala við þig lengur ef þú vilt að ég mæti í vinnuna klukkan átta...
Og svo mætti ég í vinnuna klukkan átta.
Og svo fór ég í dönskuskólann eftir vinnu. Gekk það ljómandi eins og alltaf, nema að mér brást örlítið bogalistin í einni æfingunni sem kallast "udskiftningsövelser" eða "substitutional drills" og ég nenni ekki að eyða tíma í að útskýra hér. En já, það allavega klikkaði eitthvað hjá mér í einni setningunni og þá stökk kennarinn upp úr stólnum, setti báðar hendur í superman-stellingu upp í loft og hrópaði svo í glumdi "JESS VIÐ NÁÐUM ÍSLENDINGNUM!!!!". Og svo klappaði bekkurinn. Söguleg stund ;)
En já, best að fara að sofa, ætla að skella mér í bæinn á morgun fyrir vinnu (sem hefst klukkan 14) og kaupa mér skordýraeitur og tæki sem lokkar skordýr að og drepur þau svo með rafmagnsstraumi. Þá þarf ég allavega ekki að eyða hárspreyinu mínu í vitleysu.
Góða nótt kæru vinir! Bestu kveðjur frá Köpenhamn, Anna Björk kóngulóabani.
mánudagur, september 10, 2007
Oh what a beautiful mooorning
...sagði
Anna Bj.
-
mánudagur, september 10, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli