fimmtudagur, júlí 19, 2007

Spaks manns spjarir

Ég fann fleiri not fyrir Verkalýðstöskuna mína í dag. Þegar maður er búinn að kaupa svo mikið að það kemst ekki meira ofan í hana, þá er alveg tilvalið að hengja pokana UTAN á hana því að handfangið er svo mjótt og því hentugt til slíkra verkefna.

Annars var ég akkúrat sex klukkutíma og tíu mínútur í einni verslunarmiðstöðinni í dag, og allan tímann á fullu við að máta föt. Já, ég er svo sannarlega orðin læknuð af því að geta ekki fundið mér föt, eftir ÖLL ÞESSI ÁR var það bara letin við að bera pokana sem hélt aftur af mér því ég hafði náttúrulega engan áhuga á að kaupa neitt þegar ég vissi að ég þyrfti að bera poka... Spurning samt hvort peningaveskið hafi þurft á þessari sjúkdómsgreiningu að halda?

Hins vegar verður að segjast eins og er að ég snillingur í því að finna það sem ég vil - á því verði sem ég vil. Á ég það jafnvel til að ganga úr búð í búð í búð í búð til þess að fá mínu framgengt, og því eyddi ég nánast engu í dag þrátt fyrir að hafa endurnýjað fataskápinn nánast að fullu. Og allt sem ég keypti voru gelluföt með meiru, ég meina, maður má nú ekki vera halló í Köben!

Þó verð ég að viðurkenna að ég gekk nú eiginlega fram af sjálfri mér á tímabili með gellustælum þegar ég strunsaði með nefið upp í loft inn í snyrtivöruverslun, skellti nýju knallrauðu hælaháu skónum mínum á búðarborðið og sagðist ætla að fá naglalakk í sama lit, takk... Og svo fór ég og keypti mér fleiri push-up brjóstahaldara. Það er af sem áður var. Puha!

En nú verð ég að fara og gera eitthvað af viti, eins og t.d. máta föt og múnderingar...

Bestu kveðjur, Anna sem er frelsuð

Engin ummæli: