(Færsla án fyrirsagnir, tölvan er á gelgjunni!)
Doh, ég ætlaði að skella inn nokkrum myndum, en þá þarf netið að vera úber sljótt. Skelli þeim bara inn á morgun.
Nú er ég komin í fjögurra vikna frí frá dönskuskólanum vegna skorts á kennurum vegna sumarfría. Og þar sem að mér er afar illa við að sitja bara heima og bora í nefið í fjórar vikur, þá bauðst ég til þess að vera aðeins sveigjanlegri hvað varðar vinnuna þessar fjórar vikur (hef verið frekar ósveigjanleg vegna skólans) og sagðist jafnframt geta tekið að mér einhverja aukatíma ef á þyrfti að halda... Frá því er skemmst að segja að yfirmaðurinn fylltist ofsakæti við þessi tíðindi, spretti inn á skrifstofuna og fór hamförum með vaktatöfluna mína. Niðurstaðan: skrilljón kvöldvaktir í staðinn fyrir morgunvakta (maður græðir meira á kvöldin), margar tíu tíma vaktir, auka laugardagsvaktir svo ég er sett á alla laugardagana þessar fjórar vikur og svo fæ ég líka sunnudagsvakt mánaðarins. Var svo sagt að ef ég vildi meira, þá væri nú vel hægt að redda því... Hoho, ég veit varla aura minna tal! Reyndar er alveg spurning hversu mikilvægur starfskraftur ég í rauninni sé, svona í ljósi þess að geri fátt annað í vinnunni þessa dagana en að brjóta of mikilvæga lykla og svona... En ég meina hey, ég var ekki einu sinni að nota hann þegar hann hrökk í sundur í höndunum á mér! Engu að síður geng ég nú undir nöfnunum "Anna den stærke" og "The Viking" af kollegunum... Spurning hvort það sé skárra en "Kattarkonan" og "Ruslanna" þegar ég var að vinna í búðinni heima?
Og ég þarf nú varla að segja ykkur frá því að ég gjörsamlega flaug eins og fuglinn fljúgandi áfram á þrep átta í dönskuskólanum. Í næstsíðasta tímanum á þrepi sjö var alveg "ógeðslega og geðveikislega fokking erfitt próf" sem að langflestir falla á. Hósthóst, ég hefði getað gert þetta blindandi með hendurnar bundnar fyrir aftan bak! En sem sagt, 4 nemendur af 14 náðu prófinu og komust áfram yfir á þrep átta.
Núnú, Danmmörk drukknaði næstum því nú á dögunum. Í dagblöðunum í dag voru myndir af húsum þar sem að hálfur til einn metri af vatni hafði komið upp í gegnum klóakrör og fleira skemmtilegt. Hátíðargestir á Roskilde-hátíðinni flúðu margir hverjir heim til sín og það rigndi meira á einum sólarhring núna heldur en samtals á öllum fjórum dögum hátíðarinnar frá því að Roskilde-Festival var fundið upp, svæðið var sem sagt ekkert nema einn stór pollur og drulla og reynt var að kasta heyi ofan í ósköpin til þess að bjarga einhverju. Úrkoma júní-mánaðar sló öll úrkomumet frá því nítjánhundruðfjörtíuogeitthvað.
En ég hef samt ekkert orðið vör við þessa blessuðu rigningu! Ekki baun í bala! Því að jú, sjáið til, ég er alltaf í vinnunni eða í skólanum og því hefur þetta ekki haft nein áhrif á mig. Þannig að ef þið spyrjið mig hvernig veðrið sé í Danmörku, þá segi ég að sjálfsögðu sól og sumar :) Sem ég held reyndar að sé lygi...
Æh, ég nenni ekki meiru í kvöld. Ætlaði að segja ykkur frá þremur atriðum í viðbót en það verður að bíða betri tíma.
Later! Bestu kveðjur, Anna den stærke
laugardagur, júlí 07, 2007
...sagði
Anna Bj.
-
laugardagur, júlí 07, 2007
Flokkur: Danmark
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli